Litaland - fyrir hlýleg heimili

Litaland | málning, veggfóður, rósettur og listar fyrir hlýleg heimili

Ráðleggingar

Ráðleggingar fyrir málningu:

 • Loft eru alltaf máluð á undan veggjum, svo ekki fari málning á nýmálaða veggina.
 • Loft eru oftast höfð ljósari en veggir. Þannig skynjum við herbergi stærri og rýmri.  
 • Aukin gljái gerir misfellur á yfirborði meira áberandi. Mött málning felur misfellur betur en gljáandi.
 • Ekki er ráðlagt að mála loft með hærra gljástig en 5. Á veggi í herbergjum og stofu er hægt að nota meira t.d. gljástig 10-20.
 • Í eldhúsi og baðherbergi er mælt með enn hærra gljástigi, t.d. Akrýl 35/85 málningu.
 • Augað skynjar liti mismunandi eftir gljáa, og mattari málning gefur ljósari tón.
 • Litir virðast sterkari á stórum flötum. Veljið því daufari liti á stóra fleti og sterkari á litla.
 • Lýsing hefur áhrif á liti.
 • Byrjið ekki á nýrri málningardós á miðjum vegg.
 • Rétt hitastig (15-20 °C) og rakastig (40-70 %) skipta máli hvernig til tekst.
 • Lesið vandlega á dósarmiða áður en vinnan hefst.
 • Litaprufur geta verið afar hjálplegar við val á litum. Hægt að fá litlar handhægar litaprufur í öllum litum og prófa hinar og þessar litasamsetningar.
 • Ekki er allt sem sýnist í litakortum. Margir litir, sem þar eru, hafa svokallaða viðvörun, vegna ýmissa ágalla. Þar má nefna lélega dekkingu, lélegt sólþol og fl. Öllum þessum vafaatriðum á sölufólk að bregðast við og aðvara kaupendur.
Að mála baðkar !

Þegar baðkör eru framleidd, er ekki gert ráð fyrir að þau séu máluð.  Á þeim er gljáhúð (emilering), sem á að hrinda öllu frá sér. Með réttum málningarefnum er þó hægt að komast fram hjá þessari hindrun.

Til að byrja með þarf að þrífa baðkerið með fituhreinsi.. Hann er borinn á með uppþvottabursta. Mikilvægt er að allir fletir fái þessa meðferð. Fituhreinsinn má blanda 1:1, allt eftir því hve flöturinn er fitugur. Fituhreinsinn má nota óþynntann. Hann er borinn á með bursta, látinn liggja á í 15 mínútur, og síðan skolaður vel af með hreinu vatni. Kerið er síðan þurrkað með hreinni tusku. Að því loknu er, til að tryggja viðloðun, karið slípað með sandpappír af grófleika 180-220. Allt ryk er síðan fjarlægt vandlega með ryklút.
Næst er að grunna karið. Til þess er notaður tveggja þátta epoxy-grunnur ( Bátagrunnur ). Hann bindur sig vel við gljáhúðina, auk þess að tryggja viðloðun lakksins. Gott er að þynna grunninn, 5-10%, með Epoxyþynni. Með því næst gott flot í efnið og slétt áferð.

Þá er komið að lökkun. Til þess er notað Hardtop, tveggja þátta pólýúreþan lakk. Það má þynna 5-10%, með Kjarnaþynni. Tvær umferðir eru nauðsynlegar, en þrjár ennþá sterkari.  Yfirmálunartími milli grunns og lakks er lágmark 7 klst. Lágmarks yfirmálunartími milli lakkumferða er 5 klst. Þurrktími getur þó verið mismunandi eftir aðstæðum. Til að ná betri áferð er gott að slípa á milli umferða með mjög fínum sandpappír af grófleika 400. Allt ryk er síðan fjarlægt vandlega með ryklút.
Það er nauðsynlegt að hafa í huga, að bæði þessi efnin eru mjög lyktarsterk. Því er ráðlegt að hafa kolagrímu fyrir vitum þegar verkið er unnið. Þá er nauðsynlegt að hafa glugga opna.     
Þegar lakkið er þornað er baðkarið fyllt af köldu vatni  og það látið standa í 1. klst.  Eftir það er karið tilbúið til notkunar.

Þetta málningarkerfi hefur dugað vel á plastbáta og heita potta um árabil og er eina kerfið, sem Litaland þorir að mæla með á baðkör.


Að mála flísar!

Það er hægt að mála flísar með góðum árangri. Lykillinn að velgengni er að hreinsa flísar afar vel fyrir málun. Síðan er hægt að nota epoxý grunn, líkt og Poxydekk sem er vatnsþynnanlegt epoxý. Það skiptir miklu máli að hreinsa flísarnar mjög vel með hreinsiefnum og matta þær síðan eins og hægt er.

Postlisti

Framsetning efnis

moya - Útgáfa 1.12 2007 - Stefna ehf

Skrá inn

Deila